miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Nú fer að hitna í kolunum


Skrifað mánudaginn 25. febrúar


Nú er aldeilis farið að hitna í kolunum hérna suður í Gíneu-Bissá. Og það á tvo vegu. 

Í fyrsta lagi hefur hitnað óverulega í veðri á aðeins 1-2 vikum. Fyrstu vikurnar hérna var hárið á mér í fínu lagi og ég hugsaði með mér hvaða píp og pempíuskapur það hafi nú eiginlega verið í mér að ætla að taka sléttujárnið með til Afríku. Fyrir 2 vikum síðan byrjaði hárið á mér að vera óviðráðanlegt og er það núna eins og fax á hesti. Skemmst er frá því að segja að hef látið senda eftir sléttujárninu. Aðrar skandinavískar stúlkur í landinu hafa sömu sögu að segja. Hitinn er líka að verða óbærilegur þegar sólin stendur sem hæst. Ég ætlaði í sólbað um helgina og það var eins og skrúfað hefði verið frá skinninu á mér. Ég hafði varla í við að drekka nóg vatn. Ég var eins og sigti!


Í annan stað þá flýgur sú saga fjöllunum hærra að frægur Hollívúdd leikari og leikstjóri sé á leiðinni til landsins. Hef ég þetta frá annarri hendi. Og getiði nú hver það er!! ... 

vísbending 1: Hann er fallinn alkóhólisti

vísbending 2: Hann vann fjölda verlauna fyrir mynd sem hann lék í og leikstýrði árið 1996, m.a. fékk hann óskarinn fyrir leikstjórn það árið,

vísbending 3: Hann lék í myndum sem þýddar voru á íslensku sem “tveir í takinu” eða “tveir í tuskinu” 1-4 eða eitthvað álíka... Freyr man það.


Maðurinn er enginn annar en Mel Gibson! Hann ku vera að koma hingað til að veiða í mars og mun gista á Mara Zul hótelinu hér norð-vestur af Bissá. Það væri nú gaman og gott fyrir landið ef hann væri að skoða tökustað fyrir næstu mynd sína. En eins og menn muna þá gerðist síðasta mynd hans í Rómönsku Ameríku og þar áður í Miðausturlöndum, svo afhverju ekki Afríka næst. Ég veit nú ekki hvort fyrri myndir voru teknar upp á viðkomandi stöðum en skítt með það. 


Annars sel ég þessa sögu ekki dýrara en ég keypti hana frá Jeff og Mike. Þeir gista á Mara Zul og höfðu þetta frá eiganda hótelsins. Ég hef nú þegar manað Mike til að taka buddy-picture af sér með Mel ... og það má ekki vera mynd sem tekin er þegar Mel liggur dauður á sundlaugarbakka og Mike stillir sér upp, ónei, það verður að vera alvöru buddy-picture!


Annars er það að frétta að ég brann aðeins á göngutúr mínum um helgina og er ég nú full sjálfstrausts til að mana framkvæmdastjóra UNICEF Íslands í brúnkukeppni þegar hann kemur. Þá mun ég endurheimta stolt mitt sem troðið var ofan í svaðið á afmælisdaginn minn í desember (!!!) þegar ég tapaði í brúnkukeppni. Þá var ég nýkomin frá Kúbu og hann frá Dóminíska lýðveldinu. Ég tek það fram að styttra var síðan hann hafði komið heim þegar brúnkukeppnin var háð. Lóa var líka með en hún hafði komið frá Ástralíu í byrjun desember og gaf ekkert eftir.


Ég held ég hafi einnig grennst um sirka 2-3 kíló og hárið á mér er orðið allt of ljóst. Ég var meira að segja kölluð blondína um daginn! Það er þó auðvelt að fitna aftur í þessu landi því að ég borða olíu með öllum mat, mikið af hrísgrjónum og frönskum kartöflum og fransbrauð. Ég borða líka færri máltíðir yfir daginn sem er ekki gott fyrir aðhaldið og eina hreyfingin eru göngutúrar. En aftur á móti er ég ekki að borða nein sætindi, borða mikið af kjöti og fiski og alltaf frekar lítið í einu - ég verð södd af engu núna. Ég borða heldur ekki eins mikið pasta og heima. 


Helgin var alveg frábær eins og vanalega. Föstudagurinn var nokkuð rólegur. Ég hitti Danina á frábærum all you can eat-veitingastað, sem gæti verið trendy staður í New York ef lýsingin væri ekki eins og á tannlæknastofu. En það var alveg furðulegt að vera inni á svona stað í miðri Bissá. Svo keyrðu þau mig á Malaika hótelið þar sem Delgado var með tónleika. Hann er svona Michael Jackson þeirra Bissá búa. Það vantaði ekki einu sinni hvíta hanskann. Upphitunaratriðið var mjög gott en Delgado söng bara á playback svo mér var nóg boðið og fór heim um miðnætti. Aðstoðarmaður okkar Karynu, Muniro, var kynnir kvöldsins og stóð sig með ágætum að ég held ... skildi náttúrulega ekki orð frekar en fyrri daginn, en hrósaði honum fyrir frammistöðuna í dag. Ég og hann ætlum að mynda bólusetningarátakið á morgun hér í Bissá. Ég verð myndatökumanneskja með myndbandsupptökuvélina hans Jeffs, sem ég fékk að láni í gær. 


(Nú rétt í þessu var einhver fjandi að bíta mig og er ég að fá eitthvað sem líkist þriðja stigs brunasári eftir sígarettu á handlegginn og berst við að klóra mér ekki).


Jæja, á laugardaginn labbaði ég í tvo tíma um Bissá og uppgötvaði enn meira af þessari fátæklegu borg. Um kvöldið ætlaði ég að hitta Jeff, en hann beilaði. Aymar, sem ég fór með til Cacheu um síðustu helgi, hringdi í mig og minnti mig á það að ég væri boðin í afmæli systur hans sem haldið yrði þá um kvöldið. Ég sagðist myndu koma strax og lenti þá fyrst í 10 ára afmæli hjá frænku hans. Fólk hér er mjög duglegt við að bjóða manni í fjölskylduboð. Ég hef þegar farið í 2 barnaafmæli á einum mánuði. 


Síðar um kvöldið fórum við svo til systur Aymars sem var 43 ára og býr í Barracuda-hverfinu. Hún á steinhús og rafmagn, en ekki rennandi vatn. Hún hafði sett stóla og borð út  á bílastæði eða verönd. Borðin svignuðu undan kræsingum. Whisky var nóg af enda kalla ég hana the whisky woman. Hún heitir annars Feliz og er algjör partýkelling. Hún sagði mér m.a. að í þessu landi noti fólk hvert tækifæri til að slá upp veislu því að það er ekkert annað við að vera, ekkert bíó eða neitt slíkt. 


Svo fór ég á Cyper Café því ég hafði lofað að hitta Danina þar. Þau voru komin þegar mig bar að garði í geðveiku stuði eftir afmælið, en örfáar hræður aðrar voru á barnum. Ég hlammaði mér niður hjá Silvíu og Fernando og bróður hans. En þau spila saman í hljómsveit sem er með föst gigg alla laugardaga á Palace Hotel. Stuttu síðar fara Danirnir heim að sofa og 10 mínútum eftir það fyllist allt af fólki. Mig langaði mest að hringja í þá aftur en það var um seinan. Það furðulegasta var að yfirleitt er ég eina hvíta hræðan á staðnum, en þetta kvöld voru ekkert nema útlendingar. 


Ég verð að segja ykkur meira frá Silvíu. Hún er 23 ára söngkona frá Senegal og kærasti hennar er í Super Mama Djombo. Hún er með fallega glansandi kolbikasvarta húð og er algjör díva þegar hún syngur. Við höfum verið mestu mátar alveg frá fyrstu kynnum og hún tileinkar mér alltaf nokkur lög þegar hún treður upp á Cyper Café. 


Og nú kemur montið. Á sunnudaginn var ég hvorki meira né minna en fjórbókuð:

  • Jeff og Mike voru komnir í bæinn og buðu mér að hitta sig í löns
  • í afmælispartýinu hafði ég hitt gæja sem bauð mér í löns daginn eftir og ætlaði að bjóða mér upp á Cohiba vindla og romm frá Kúbu eftir matinn, en það hafði hann fengið frá Kúbanska konsúlnum hérna
  • ég hitti Polly, ensku stelpuna, sem bauð mér með sér og fleirum í sund á Azalay (eina sundlaugin sem ég hef prófað hérna)
  • á barnum kvöldið áður heimtaði Silvía að ég kæmi að sjá hana syngja í Campo Sueco (Swedish Compound) á sunnudeginum. 


Nú var úr vöndu að ráða, en þar sem Jeff og Mike eru svo skemmtilegir og við höfðum mælt okkur mót nokkrum dögum áður þá gat ég ekki svikið það. Við hittumst því og fengum okkur að borða. Því næst ákvað ég að við skyldum öll fara að hlusta á tónlist í Campo Sueco. Mig langaði líka að sjá staðinn því ég er á biðlista eftir íbúð þar ef eitthvað skildi losna á næstunni. 


Um kvöldið fór ég með könunum á portúgalskan veitingastað og rafmagnið fór tvisvar. Þar spunnust umræður um ör og að heyra þessa gæja segja sögur af örunum sínum ... þetta ör er eftir tiger-hákarl, þetta ör eftir að áll klauf þumalinn í sundur, og ég veit ekki hvað. Jeff á líka sögur við öllu, það er sama hvað það er, hann hefur prófað það. Hann var að bjarga dýrum eftir Tsunami, hann var að bjarga dýrum eftir fellibylinn Katrinu og svo framvegis. En hann er á þessum stöðum af algerri tilviljum þegar hlutirnir gerast. Í gær segir hann mér frá því þegar hann lenti í fangelsi á Íslandi! Tekinn fyrir ölvunarakstur. Um morguninn hafði birst viðtal við hann í DV og þarna sat lögreglustjórinn í Reykjavík með DV í höndunum að yfirheyra hann.

Hann sagði mér líka söguna af því þegar hann var næstum því drukknaður í höfninni í Vestmannaeyjum, en maðurinn hefur verið nálægt dauðanum oft og mörgum sinnum. Ekki samt ímynda ykkur að hann sé alltaf að segja sögur af sjálfum sér þó hann hafi lent í allflestu, ímynda ég mér. Þetta bara poppar upp úr honum svona við og við. Það er í raun fyndið því hann tekur ekkert eftir því að hann hafi verið að toppa allar aðrar sögur. Mike er svona lærlingurinn hans og hefur fylgt honum núna í 2 ár. En hann er líka mjög fyndinn og gerir grín að því hvað Jeff kann ekkert á allar græjurnar sínar.


Talandi um Kana ... Alltaf þarf Bush troða sér. Nú síðast í Afríku og auðvitað bara til að storka Kínverjum. Hann lét nú sem betur fer ekki sjá sig í Gíneu-Bissá. Þess má geta að Kínverjarnir eru þegar komnir með einhver ævintýri hingað til Gíneu-Bissá. Þeir eru að veiða skilst mér og reyna að finna olíu. Maður sér þá á götum úti og svo er a.m.k. einn kínverskur veitingastaður hérna. Hvernig var fjallað um þessa ferð hans í íslenskum fjölmiðlum? Sorry ég fylgist lítið með. Óskarinn fór m.a.s. framhjá mér þangað til í morgun. 


Skondnar myndir frá lífinu í Bissá:


Silvía að syngja og kærastinn á gítarnum.
Þessi litla geit fyrir utan hótelið mitt var ansi úrræðagóð.
Þessum bíl hafði verið klesst á staur og hér er auðvitað enginn sem sér um að hirða bílhræ. Það hlýtur einhver að hafa slasast í þessum árekstri.
Það má ekki á milli sjá hver á hvaða fingur, Jeff dýravinur eða simpansinn í Campo Sueco!

3 ummæli:

Unknown sagði...

Vó -er Gibson á leiðinni? Betur þekktur sem annar af tveim í "Tveir á toppnum" -myndunum.
Færðu að hitta hann? Ef svo er værir þú þá til í að fara varlega að honum -hann ku vera kexruglaður. Enda ekki MAD MAX (í íslensku -Villti Villi)að ástæðulausu.

Afríkudrottningin sagði...

Eg vissi ad tad vaeri einhver faranleg thyding "tveir a toppnum" - snilld!

Olla Swanz sagði...

mér fannst þessi "tveir í takinu" þýðingarvitleysa miklu betri - gefur soldið misvísandi skilaboð um innihald myndarinnar