föstudagur, 22. febrúar 2008

Tíminn framundan og túrismi







Nú er liðinn tæpur mánuður síðan ég kom hingað og ég verð þunglynd af að hugsa um að einn þriðji ferðarinnar sé búinn!! Floginn burt og aðeins 2 mánuðir eftir. Þessir 2 mánuðir verða þó mjög spennandi. Íslendingarnir eru að koma núna 4. mars - sama dag og Brynja sys á afmæli - og verða í 6 daga. 7. mars verða útgáfutónleikar Super Mama Djombo. Fólkið býður með eftirvæntingu eftir tónleikunum en þau mega ekkert segja í fjölmiðla fyrr en viku fyrir tónleikana. Allt útpælt. Tónleikastaðurinn á að taka um 1500 manns. Síðan halda þau í tónleikaferðalag til Dakar, Íslands (listahátíð í Maí á Nasa), Þýskalands, Noregs og Svíþjóðar held ég og kannski Portúgals. Fyrir ykkur sem ekki vita þá var platan tekin upp í Sundlauginni, hljóðveri Sigur Rósar á Íslandi. 


Í miðjum mars kemur Freyr en þetta er í fyrsta skipti og hann heimsækir Afríku. Ég var að tala við konu sem vinnur hjá UNDP og hún hefur farið víða um Afríku en finnst alveg merkilegt hvað er nákvæmlega enginn innri strúktúr hérna í landinu. Maður sér það strax á umhverfinu. Samt eru möguleikarnir svo margir og landið hefur upp á margt að bjóða.


Rétt í þessu var ráðgjafi forseta landsins að bjóða mér með sér og fleirum út að borða. Ég var að hitta hann fyrir 2 mínútum, en hann þekkir greinilega eiganda hótelsins. Svona er auðvelt að kynnast fólki hérna!! Ég varð að afþakka því ég ætla að hitta Danina í kvöldmat og fara svo kannski á tónleika á Malaika hótelinu með Daniel. En ráðgjafinn og eigandi hótelsins ætla líka á þá. 


Ég gleymdi að segja frá því að síðasta sunnudag fór ég og skoðaði gömlu höfuðborg Gíneu-Bissá, Cacheu í Cacheu-héraði. Það var einmitt með vinum Karynu sem ég hafði hitt á barnum kvöldið áður og þau buðu mér með. Um var að ræða partý í stórri verksmiðju þar sem var endalaust af mat og áfengi. Ég og Aymar, sem bauð mér með, höfðum samt aldrei komið þangað og fengum gaur til að segja okkur sögu borgarinnar/þorpsins (það er ekki eins og maður geti keypt ferðahandbók hérna) og skoðuðum okkur um á meðan systir Aymars og fleiri drukkur wishky og bjór. Í partýinu var gaur sem ég sá svo í sjónvarpinu í fyrradag. Hann er yfir ferðamálabransanum hér eða eitthvað slíkt.


Cacheu var einn af fyrstu stöðunum í Afríku sem var numinn af Portúgölum og einn af fyrstu stöðunum sem þrælar voru seldir Vestur um haf. Þegar Portúgalarnir komu var hins vegar ekki um að ræða neitt sérstakt land heldur bjuggu þjóðernishópar í mismikilli sátt. Í Cacheu voru Fulani og Manjunco (minnir mig!) sitt hvoru megin Cacheu-árinnar. Fulani voru árasargjarnir og drápu Portúgalskan yfirmann landnema og fylgdarlið hans sem kom inn ánna á 40 bátum. Þetta var á 15.-17. öld. Manjunco átti í viðskiptum við Portúgali ásamt öðrum hópum í landinu. Smám saman blandaðist fólkið og ljósleit börn fóru að fæðast. Þá fundu Portúgalar Capo Verde sem var eyðieyja og þeim varð ljós að miklu betra var að stoppa þar með þrælana á leiðinni Vestur. Þeir fluttu þá höfuðborgina frá Cacheu til Capo Verde, en þá hafði Cacheu verið höfuðborg landsins í 200 ár. Næstu 100 árin fluttu margir Portúgalar til Capo Verde. Fólkið sem var blandað og ljósara yfirlitum naut meiri virðingar í samfélaginu og margir þeirra fluttu líka til Capo Verde. Þess vegna er fólkið frá Capo Verde miklu ljósara en aðrir á meginlandinu í dag. 


Eftir að Capo Verde hafði verið höfuðborg í einhverja tugi ára varð Bolama, eyja í Bisagos-eyjaklasanum, höfuðborg í nokkra tugi ára. Bissá hefur svo verið höfuðborg í einhverja tugi ára líka. Cacheu var því höfuðborg Gíneu-Bissá lang lengst, miklu lengur en Bissá. Portúgalir voru duglegir að reisa sér minnismerki eins og algent var í Evrópu á þessum tíma. Í dag má sjá virkið, sem Portúgalarnir reistu við strönd Cacheu, og í því liggja styttur eins og hráviði. Þeim var beinlínis hent inn í virkið því að eftir að Portúgalar fóru vildu Gínearnir ekki sjá þetta kjaftæði. Sjá myndir efst.

3 ummæli:

Kiddý sagði...

gaman að fylgjast með síðunni þinni. Vá hvað ég væri til í að heimsækja þig. Ég er smá smeik að heimsækja Afriku...þurfum að taka smá spjall um það. Love K

Adda Rut sagði...

Fínt að geta skipt um höfuðborg eftir hentugleika... Velti fyrir mér hvað fastheldnir Íslendingar segðu við slíkum breytingum hér á landi.

Unknown sagði...

Einhver á eftir að koma fróðari um GB heim og gera aðra fróðari ... og gettu hverjir þessir einhverjir eru í hvoru tilviki fyrir sig.

Forkurinn