mánudagur, 11. febrúar 2008

16 dagar i GB

Skrifað sun. 10. febrúar
Nú hef ég verið 16 daga í GB! Metið mitt áður í Afríku voru tvær vikur í Kenía! Ég verð að segja að ég finn það mjög sterkt að ég er að gera það sem ég á að vera að gera í lífinu ákkúrat núna - þ.e. ég finn að ég er að lifa í örlögum mínum. Það er langt síðan ég hef verið svona afslöppuð og mikið ein ... og ég er alveg að fíla það. Ekki það að ég kynnist nýju fólki nánast daglega, mér finnst bara líka gaman að vera ein.

Vegna þess hversu mikið ég finn að ég eigi að vera hérna núna þá sakna ég Íslands ekki neitt. Sérstaklega þegar maður fréttir af veðurspánni!! Ég get ekki lýst því hvað veðrið hér er yndislegt ... 30-35 stiga hiti með svalri golu ... mmmm... yndislegt að sitja í skugganum og fara við og við og láta sólina skína á sig. Það á þó eftir að hitna, en ég meika það alveg.

Ég sakna samt ykkar allra, Freys, fjölskyldunnar, systkina minna og litla Baldurs og svo er ég auðvitað stundum í miiiikilli þörf fyrir vinkvennaspjall. En ég sakna samt ekki Íslands. Það var kominn svo mikill tími á það að ég færi burt í langan tíma. Á meðan flestir mínir vinir hafa farið til útlanda að vinna eða í nám hef ég verið heima. Nú er ég að tala um Þóru, Hugrúnu, Ásu, Kiddý, Fríðu, Brynju Dögg, Roald, Lóu, Kamillu, Sveinbjörgu, Brynju sys&Nonna, auðvitað Oddlaugu og ég er örugglega að gleyma einhverjum. Pælið í því!

Ég hef samt mikla þörf fyrir að hlusta á íslenska tónlist og er komin með æði fyrir Bubba. Hlóð niður Ást, Í sex skrefa fjarlægð frá paradís og Bellman plötunum hans áður en ég fór og elska að hlusta á þetta núna. Maðurinn er snillingur. Vill einhver skila því til hans frá mér? Þið sem eigið leið hjá GB á næstunni megid alveg koma með meiri Bubba handa mér .

Svo finnst mér nýi Amiinu diskurinn alveg frábær, mæli með honum. Enda valdi hinn góðkunni útvarpsmaður og skemmtikraftur, Freyr Eyjólfsson, hana plötu ársins í fyrra. Flestir aðrir völdu Heima með Sigur Rós, sem er auðvitað frábær líka, en Amiinu platan er snilld. Þetta er pottþétt með betri böndum Íslands núna og ég held þær séu ekki alveg að fá nógu mikið kredit fyrir hæfileika sína og það sem þær eru að gera.

Mig langar að koma með nokkrar tilkynningar ...

  • sendið mér endilega línu á abaldursdottir@unicef.org ef þið hafið fréttir að færa. Maður les það á internetinu að Þóra hafi skýrt strákinn Véstein (mjög flott nafn) og að Hugrún sé búin að eiga háruga stelpu (algjör dúlla)! Til hamingju elskurnar. Nú bíð ég bara eftir því hvað Hugrúnardóttir á eftir að heita. Svo vil ég fá sérstakan póst frá Fríðu þegar þar að kemur og ekkert rugl.
  • Brynja systir mín er með skemmtilegt blogg og ég þakka fyrir hlýjar athugasemdir í minn garð á blogginu hennar.
  • Takk fyrir að hringja mamma og pabbi. Það var svo gaman að heyra í ykkur. Endurtakið þennan leik við tækifæri. Ef ég hringi líka eftir kl. tíu á kvöldin er það miklu ódýrara fyrir mig svo verið viðbúin. Ég minni á að ég er í sama tímabelti og þið þarna uppi á Íslandi. Síminn er +245 67 47 157 (gsm).
  • Til að koma í veg fyrir misskilning þá er ég sennilega ekki búin að léttast um 2 kíló á einni viku. Pointið var að vigtin var svo gömul og riðguð (svona eins og var í gömlu sundhöllinni). En mér finnst nú að ég ætti að grennast aðeins þar sem þegar Mama Djombo fóru frá GB til Íslands bættu þau öll á sig. Þetta ætti því að virka öfugt á mig hérna! Ég borða ekki mikið, en þegar ég borða þá er maturinn allur í olíu, með majonesi og ekkert nema hvítt brauð, hvít hrísgrjón og franskar með. Ekki “eða”, ónei, “og”, já í flestum tilfellum er allt þetta með matnum. (Fékk samloku í dag í baguette-brauði með majó, tómatsósu, tómati, spældu eggi, frönskum og smá kjöti!!). Fólk frá GB finnst það ekki hafa borðað nema hafa sett ofan í sig svona kíló af hrísgrjónum með hverri máltíð. Maturinn er samt mjög góður hérna og það á víst við um flest lönd Vestur-Afríku, ólíkt því sem maður myndi halda.
  • Ég vil biðja Kamillu, Ollu og Fríðu að blogga oftar. Þær eru svo skemmtilegar! Ég er að reyna að fylgjast með hérna af kantinum.
  • Síðast en ekki síst færi ég sérstakar þakkir til Brynju Daggar Friðriksdóttir sem hlóð niður Nip Tuck, Prison Break, Private Practice og nokkrum bíómyndum á tölvuna mína daginn áður en ég fór. Ég hafði rosa lítinn tíma, en Oh my god hvað þessum mínútum var vel varið. Örugglega betur varið en að fara í bólusetningu í Mjóddinni, ég sver það. Ég er núna búin að horfa á allt efnið og ef þú ert í stuði, Brynja mín, þá máttu endilega skrifa eitthvað á disk fyrir mig og senda með Stefáni í byrjun mars eða með Frey í miðjum mars. Ef seinni hluti Prison Breaks er kominn þá virkaði ekki þáttur númer níu sem þú lést mig fá. Ég held svei mér þá að ég taki annan snúning á Nip Tuck, þetta eru svo miklir snilldarþættir. Brynja, ég elska þig! (mappan heitir ennþá “frá Brynju” og ég hugsa alltaf svo hlýlega til þín þegar ég opna hana).

Ég hef farið í langa göngutúra um helgar til að átta mig aðeins betur á borginni. Ekki þýðir að finna götukort svo þetta er eina leiðin! Ég næ smá tani og hreyfingu í leiðinni svo það er fínt. Ég kynnist alltaf einhverjum á leiðinni. Í dag kynntist ég Portúgala, Miguel (eða eitthvað), sem reyndist síðan vera skúringagaur á skrifstofunni. Svo við enduðum bara á því að segja “sjáumst á mánudaginn”. Ég kynntist líka pínu kreepy gaur sem er að vinna sem ráðgjafi í nokkrar vikur fyrir Matvælaáætlun SÞ. Fékk símann hjá honum og get farið út að borða með honum ef ég vil. Hann er líka með jeppa á sínum snærum. Þetta var sumsé í bakaríinu sem er nýja fattið mig hérna. Smakkaði bestu köku í heimi þarna í dag.

Í gær fór ég aftur á barinn í gamla hverfinu, Cyper Café, með nokkrum úr Mama Djombo. Hitti Ze Manel og er að fara á fund með þeim í æfingarhúsnæði þeirra á morgun (í dag). Það er svo gaman að fara með þeim á barinn því þau eru öll meira og minna að spila og syngja og þekkja alla sem spila. Maður er því á aðalborðinu, þið skiljið. Heyrði aftur yndislega fallega lagið hans Rui Sengere - þessi sem nær hátt upp með röddinni.

Svo setti ég mig loksins í samband við stelpu, Ane, í Bandim verkefninu í dag. En það eru danskir stúdentar sem eru að vinna í þróunarverkefni hér og var Baldur Steinn í samskiptum við þá þegar hann var hér. Það var gaur hérna á hótelinu sem gaf mér númerið hjá stelpunni. Við spjölluðum mikið yfir morgunmatnum á meðan hann var hér. Áður en hann fór setti hann miða með númerinu hennar undir hurðina hjá mér með þeim orðum að þau skildu hvernig það væri að vera ein hérna, búandi á hóteli og kunna ekki tungumálið. Nú ætlar Ane að hringja í mig því þau eru með danska gesti í vikunni og prógram öll kvöld.

2 ummæli:

Brynja sagði...

Mikið er alltaf gaman að lesa bloggið þitt frú systir. Hlýjar kveðjur úr kuldanum á Íslandi til þín. Baldur litli biður sérstaklega að heilsa. Hann saknar frænku svo mikið að hann fékk hita en er að jafna sig.

Unknown sagði...

Takk takk fyrir góð orð í minn garð
: )
Og já ég skal svo sjá til þess að þú fáir fleiri þætti af Prison Break og Nip Tuck. Og hver veit nema það verði meira því handritshöfundaverkfallið er u.þ.b að leysast. Loksins!
Knus&Kram