sunnudagur, 17. febrúar 2008

Besti staður í heimi

“Besti staður í heimi er í Guðs vilja” (The best place on earth is in gods will). Þetta er víst brasilískt orðatiltæki, en Karyna sagði mér þessi orð þegar ég var að segja henni frá því hvað mér líður vel hérna. Ég held hún hafi alveg rétt fyrir sér því mér líður nákvæmlega svona.


Núna er ég farin að þekkja Bissá miklu betur. Staðir sem ég fór á fyrstu dagana hér og virtust vera úti í buska er ég núna búin að staðsetja í götukortinu í huga mér. Ég veit alltaf í hvaða átt hótelið mitt er, vinnan mín og ég er búin að finna fullt af veitingastöðum og börum. Þó ég hafi ekki farið á nærri því alla.


Ég er farin að þekkja fólk úti á götu. Kannski ekki marga en þetta er allt að koma. Ég fór á Cyper Café bæði föstudags- og laugardagskvöld þessa helgina. Þetta er alveg yndislegur bar þar sem ég er farin að fíla mig sem fastagest. Á föstudaginn heyrði ég lag sem stakk mig alveg í hjartað. Það var einn af söngvurum Super Mama Djombo sem söng það en hann leggur mikið upp úr að tjá tilfinningar í söngnum, alveg eins og Karyna gerir líka. Mér finnst það einkenna söngvarana á þessum stað því ég skil ekkert um hvað lögin fjalla en einhvern veginn ef maður hlustar nógu vel með hjartanu skilur maður lagið.


Núna á mánudaginn byrjar hljómsveitin að æfa alla daga fyrir tónleikana sem verða í byrjun Mars. Restin af bandinu er að koma núna í lok mánaðarins og þá verða örugglega strangar æfingar. Ég er formlega boðin á allar æfingarnar, því eins og Karyna sagði þá eru allir frá Íslandi velkomnir á allar æfingar hjá Super Mama Djombo.


Karyna bauð mér í fjölskylduboð hjá sér í gærkvöldi. Það voru tvær áttræðar systur, tvíburar, sem eru systur Amilcar Cabral þjóðarhetjunnar hérna í Gíneu-Bissá. Ég fékk nóg að borða og skemmti mér konunglega þó svo enginn talaði ensku. Það er svo skrítið hvað við Karyna eigum sameiginlegt. Hún er jafngömul Brynju systur og systir hennar er jafngömul mér. Svo eiga þær bróður sem er árinu eldri en Siggi bróðir minn!! Þannig að það eru 10 ár á milli Karynu og bróður hennar alveg eins og milli mín og Sigga.


Svo er ég komin með samsærismanneskju í kaffidrykkju í vinnunni því við Karyna erum alltaf að plotta hvernig við getum reddað okkur kaffibolla. Stundum förum við niður í mötuneytið og kaupum okkur espressó og skiptumst á að splæsa. Stundum förum við inn á skrifstofu hjá einhverjum sem er með kaffivél og stelum okkur kaffi. Það er mjög gott að eiga eina vinkonu hérna - ég hef fundið það að ég er algjörlega háð því að eiga vinkonuspjall við og við. Svo hún hefur alveg bjargað mér.


Núna sit ég með hinn besta vin minn, Makkann, í portinu á nýja hótelinu. Klukkan er 11 og veðrið er yndislegt, eins og alltaf. Hlýtt og smá ferskt loft sem berst frá hafinu (myndi ekki ganga svo langt að kalla það golu). Ég er búin að finna minn sólbaðsstað hérna og lá úti í gær að lesa bók. Herbergið mitt er svo kósý. Það er meira en helmingi minna en það sem ég var með á hinum staðnum, en það er svo fallegt og stelpulegt. Það er heldur enginn séns að mús eða önnur kvikyndi kæmust inn til mín. Ég valdi herbergi á annarri hæð og þegar maður fer upp þá kemur maður fyrst inn í sameiginlega stofu og þaðan er hurðin inn í mitt herbergi. Svo er ekki pláss fyrir mús að skjóta sér undir hurðirnar (búin að ganga úr skugga um það).


Það eru listaverk á veggjunum, litríkir vasar og afrísk gríma sem er veggljós. Karyna sagði mér að listaverkin væru sennilega eftir eiganda hótelsins, Dínu. En hún er mjög fín, talar góða ensku og spyr mann hvort allt sé í lagi og hvort mann vanhagi um eitthvað. Karyna sagði að hún væri góð leikkona og söngkona líka. Ég hef nokkrum sinnum heyrt hana syngja með gaurum sem koma hérna með gítar og einhver hljóðfæri. Það er eins og þau séu á hljómsveitaræfingu hérna stundum. Alveg yndislegt á að hlýða.


Það er reyndar soldið skrítið set-up á sturtunni - eða sturtunum öllu heldur. Ég skrúfa frá og þá kemur vatn út um tvö sturtuhausa sem eru fastir við vegginn á móti hvor öðrum. Það er ekki eins og þrýstingurinn á vatninu leyfi það að dreifa honum svona yfir á tvo sturtuhausa sem er með engu móti hægt að nýta samtímis, því það eru svona 2 metrar á milli. Þetta minnir mig soldið á sturturnar í gamla gufubaðinu á Laugavatni og vandræðalegt móment sem ég átti þar. Við vorum nokkrir Íslendingar að ferðast með Stereolab um landið þegar hljómsveitin kom hingað að spila á Grand Rokk. Við fórum í gufubaðið og ég fer í sturtu og á móti mér er söngkonan í Stereolab. Það þyrmdi allt í einu yfir mig að ég stæði þarna á móti söngkonunni í Stereolab báðar kviknaktar í sturtu á Laugavatni. Ég dýrkaði þessa hljómsveit þegar ég sá þau á Reading Festival og á Roskilde... og núna stóðum við tvær naktar á móti hvor annarri. Þetta var svo skrítið móment að mér fannst eins og ég þyrfti að segja eitthvað. Eina sem mér datt í hug að segja var “you are so tanned”!!... kannski sagði ég líka eitthvað um hvað eg væri hvít í samanburðinum. Glaaatað komment. Allavega minna sturturnar mínar mig á þetta móment.

1 ummæli:

Adda Rut sagði...

Vá hvað ég hló að þessu sturtukommenti þínu! hahahahah. Næstum eins og pick up lína.