mánudagur, 14. apríl 2008

Save the Sea Turtle Mission og fleira

Til hamingju með stórafmælið Benedikt afi (90 ára, hvorki meira né minna). Mikið er ég heppin að hafa svona langlíf gen í mér. Eins og ég sagði þá vildi ég óska að ég hefði verið þarna með allri familíunni. Bestu kveðjur. 


Vinnan

Ég sit á hótelinu með kasjú hnetur í annarri og Sagres bjór í hinni. Vinnudagurinn var langur. Nú er ég að undirbúa komu Óla Rögg myndatökumanns sem ætlar að heimsækja verkefni með mér til að taka upp fyrir Dag Rauða Nefsins á Íslandi. Við ætlum að taka upp mjög viðkvæm málefni, þ.e. HIV verkefni og mansal á börnum, sem er stórt vandamál hér í GB. 


Í síðustu viku komu í kringum 50 börn í heimsókn á skrifstofuna. Þau eru frá samtökum sem heita SOS Talibes, en Talibes eru þau börn kölluð sem hafa verið tekin frá Gíneu-Bissá og látin betla á götum Dakar eða vinna í bómullar eða hnetu verksmiðjunum í Senegal. Sum þeirra voru þar í miklu harðræði í mörg ár. Þau voru svo miklar dúllur, enda mörg þeirra tekin af því þau eru talin vera góðir betlarar, með sín stóru saklausu augu. Ég tók vídeó myndir af þessarri heimsókn og vonandi verður hægt að sýna það í þættinum í nóvember. 


UNICEF hefur unnið í því að koma þeim aftur yfir landamærin, gefa þeim skjól, fæði, klæði, sápu, vatn og annað slíkt. UNICEF hefur einnig unnið mikið starf í því að fræða samfélögin, lögreglu, landamæraverði og vörubílstjóra (af því þeir eru svo mikið á vegunum og eru í aðstöðu til að sjá flutning á börnum) og ekki síst fjölskyldurnar um aðstæður barnanna í Senegal til þess að þau verði ekki send í burtu. Þegar þau eru komin aftur til GB þarf að finna fjölskyldur þeirra og fylgjast með því hvernig þau aðlagast samfélaginu á nýjan leik. Við verðum að reyna að segja sögu þessarra barna og sýna fram á hvað verkefni UNICEF skipta miklu máli í nokkurra mínútna myndbandi. 


Save the Sea Turtle Mission

Ég og Janet sem vinnur hjá UNDP, er í UNBWWSFGBIS og gistir á sama hóteli og ég, höfum einsett okkur að bjarga litlu sjávarskjaldbökunni sem þau halda hér í búri á hótelinu. Við höfum fengið sjávarlíffræðingana í lið með okkur, en þeir segja að hún lifi bara af í 3 vikur í ferskvatni. Ég spurði John, sem er framkvæmdastjórinn hérna, hvenær þau hefðu fengið hana og hann sagði 3 vikur!! Ég sagði honum að ef hann leyfði okkur ekki að taka hana myndi hún hvort eð er deyja þá og þegar. Auk þess sagði ég að það væri ekki þeim til framdráttar að hafa skjaldbökuna til sýnis fyrir erlenda gesti því í flestum löndum fer fólk í fangelsi fyrir svona lagað. Svona skjaldbökur eru í útrýmingarhættu. 


Fólkið hérna á hótelinu kann ekkert að hugsa um sjávarskjaldbökuna. Ég sá fransbrauð fljótandi í vatninu hérna um daginn. Að ráðum Jeffs gaf Janet henni salatblöð og hún hefur verið miklu líflegri eftir það. 


Þau borguðu um 2000 kr fyrir hana og við Janet borgum þeim það bara ef það er eitthvað vandamál. Jeff og Mike eru að fara út á eyjarnar á morgun og þeir munu taka hana með sér, bókað mál. Eina sem við þurfum er blautt handklæði og kassi. Þeir ætla líka að skoða aðstæður hinna skjalbakanna og hvort þær geti lifað í þessu umhverfi. 


Á morgun munum við því hleypa af stokkunum Save the Sea Turtle Mission. 

(maður hefur nú ekki verið sjávarlíffræðingur í einn dag fyrir ekki neitt!)

1 ummæli:

Adda Rut sagði...

Kófí Annan, þú ert hetjan mín!!! Ekki ertu aðeins iðin við að bjarga afrískum börnum og framtíð Afríku, heldur ertu farin að bjarga sjaldséðum dýrum í útrýmingarhættu! Tarzan og Súperman eru þegar orðnir of seinir að fara að vara sig, þeir eru bara lúðar í samanburði við þig!