Við Freyr komumst heilu og höldnu til paradísareyjunnar Rubane í Bijagos eyjaklasanum hér vestur af Gíneu-Bissá.
Ævintýri páskahelgarinnar byrjuðu á því að við fórum með almenningsferjunni sem reyndist vera hinn mesti partýbátur, eins og blanda af Akraborginni og Kaffibarnum á góðum degi. DJ, bjór, rauðvín, gítarglamur og vappandi hænur.
Bijagos eyjarnar eru paradís á jörð. Óuppgötvaðar perlur sem eru óspilltar af túristum, tandurhreinar strendur og sjór. Þarna hafa þó nokkrir framsýnir (og ríkir) Frakkar reist sér sumarbústaðarhótel í nýtískustíl þar sem unnið er með umhverfi eyjunnar og því raskað sem minnst við uppbyggingu hótelsins. Við borðuðum á frönsku heimsklassa kúsín þar sem allur matur var lífrænn ræktaður á eyjunni eða veiddur við eyjuna.
Við gerðum auðvitað ekki annað en að liggja í leti og sóla okkur undir pálmatrjánum. Hins vegar lentum við í einu all miklu ævintýri ...
Það var um laugardagsmorgun að Freyr fékk sér morgunsund, synti meðfram eyjunni og var að kanna fuglalífið eins og honum einum er lagið. Þá vakti athygli hans íslenskur hrossagaukur sem var að vappa í þessarri bissásku fjöru áður en haldið yrði til landsins bláa. Spjölluðu þeir saman dágóða stund, þessir samlandar. Því það er jú ekki oft sem maður rekst á Íslendinga í Afríku. En þegar þeir voru að ræða um flugið til Íslands sem framundan var hjá þeim báðum, rekur Freyr upp þetta mikla skaðræðisóp. Hrossagaukurinn undraðist mjög gólin í Frey og flaug á braut.
Freyr haltraði í land, alblóðugur á vinstri fæti, og fann að eitthvert skaðræðisdýr í sjónum hafði bitið hann. Ég tók á móti honum í bústaðnum og reyndi að þurrka allt blóðið til að sjá stærð sársins. Það reyndist vera tveggja millimetra skeina og fannst mér Freyr þjást einum of mikið miðað við stærð sársins. Ég hafði nýlega lært á námskeiðinu “Security in the field-staff safety, health, and welfare” að besta leiðin til að meðhöndla slöngubit eða önnur eiturbit væri að láta sárinu blæða út og alls ekki setja plástur eða búa um það. Þar sem ég sat þarna hálfringluð yfir þessu öllu saman kemur hlaupandi franskur smiður sem hafði séð Frey haltra úr sjónum. Hann sá strax hvað hafði gerst og hafði meðferðis eitur-sogs-græjur miklar. Hóf hann samstundis neyðaraðgerðir því hér var um líf og dauða að tefla. Freyr hafði verið stunginn af Stingskötu. Eins og menn muna dó frægur ástralskur náttúruglæframaður af slíku biti ekki alls fyrir löngu.
Eitrið var sogið úr fætinum á Frey með miklum látum í um hálfa klukkustund eða þangað til mestu blóðkekkirnir voru runnir úr sárinu. Þá kom mikil negrakerling sem tuggði töfragrös og setti á sárið. Frokkunum á hótelinu þótti nú best að beita líka vestrænum vísindum og gáfu honum þriggja daga lyfjakúr.
Í þrjá tíma upplifði Freyr miklar kvalir sem hann lýsti eins og rafmögnuðum ísköldum sverðum væri stungið í löppina. Frakkarnir sögðu honum að bíta á jaxlinn þar sem hann hefði verið bitinn um það leiti sem var fjara. Við næsta flóð myndi verkurinn hverfa með öllu. Sem og gerðist. Hvers vegna, veit enginn, en svona er nú náttúran undarleg.
Nóg af sögustund Önnu og Freysa.
Við lágum bara í leti alla helgina og borðuðum yndislegan mat, m.a. önd sem hafði verið samferða okkur í bátnum frá Bubaque eyju. Á páskasunnudag var haldin veisla sem stóð langt fram á rauða nótt.
3 ummæli:
ég á ekki orð!!! maðurinn hefur verið svona nálægt dauðanum. Annars hljómar þessi lýsing á eyjunni aðeins of vel - ég fyllist öfund og væri jafnvel til í að leyfa einni stingskötu að narta í mig fyrir lítið svona frí.
haha jú alveg eins skyrta!!!
Nema mín er stutterma!
Freyr heppin að einhver hafi verið með svona eitursjugutæki!!
Þeir eru ekki ónýtir þessir Frakkar, þegar þeir taka sig til! Hugulsemin alltaf á einum bæ, segi ég nú bara. Almáttugur hvað þarna skall hurð nærri hælum. Fögnum lífi Freys - og malaríuleysis Önnu. Megi þið lengi lifa, húrra, húrra, húrra!!
Skrifa ummæli