sunnudagur, 2. mars 2008

Aðstæður í Gíneu-Bissá

Einu "umferðarljósin" í Bissá
"Húsgagnahöll" þeirra Bissá-búa.

Fimmtudagur, 28. febrúar


Ég held að mér sé nauðugur einn kosturinn að skrifa aðeins um ástandið í Gíneu-Bissá svo fólk haldi ekki að veran hér sé eintómt afrískt ævintýri, glaumur og gleði, dans á rósum - en mér heyrist stundum í tölvupóstum, kommentum og msn-i að það sé skilningur fólks.


Staðreyndin er sú að ástandið í landinu er einu orði sagt hræðilegt og það er sorglegt að horfa upp á þær aðstæður sem fólkið hér þarf að búa við. Margir segja mér að ástandið hafi verið betra fyrir tíu árum, fyrir stríðið, en síðan þá hefur ástandið bara versnað. Tíðni barnadauða hefur m.a.s. hækkað frá árinu 2000. Í dag nær fimmta hvert barn í landinu ekki 5 ára aldri.


Ég hef reynt að útskýra hvernig rafmagnsleysið hefur undirliggjandi áhrif á allt - en það er í raun ekki hægt að koma orðum að því hversu hamlandi það er fyrir þjóðfélag að hafa ekki rafmagn eða rennandi vatn. Innri strúktúrinn er enginn og það eitrar út frá sér. Þetta er algjör vítahringur. Hvar sem maður kastar steininum hittir maður á vandamál. Það er erfitt að sjá hvar er hægt að byrja til að laga ástandið - hvar er hægt að rjúfa vítahringinn.


Hér eru nokkur dæmi:

  • Ríkisstjórnin á erfitt með að innheimta skatta því það vantar alla tækni til þess - rafmagn, tækniþekkingu og tól.
  • Vegna þess hversu veikt opinbera kerfið er er verið að greiða bætur til fólks sem er kannski dáið og aðrir fá ekkert. Það er enginn stjórn á þessu. Þetta á sérstaklega við um greiðslur til hersins og fyrrum hermanna. En óánægður her er mjög hættulegt fyrir land eins og Gíneu-Bissá þar sem herinn hefur gert uppreisnir og tekið völdin. Herinn fær heldur engan mat - en mér finnst að það ætti nú bara að gefa þessum köllum fræ til að rækta. Ég held að herinn sitji bara á rassinum hvort sem er.
  • Það eru svo fáir sem fara í skóla hérna að öll þekking hefur verið að hverfa í landinu. Innan opinbera geirans er fólk ekki einu sinni starfi sínu vaxið. Fólk kann ekki að byggja hús, lækna, leggja vegi... lesa. Þekkingarleysið heldur fólki við þröskuld fátæktar. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá kenni ég lítilli skólagöngu um að fólk hér á mjög erfitt með að skilja fingra-tungumálið mitt. Það er mjög frústrerandi - það horfir bara á mig einu spurningamerki þó ég hafi sett upp heilan 10 mínútna leikþátt um t.d. gaffal (gerðist um daginn). Og hefur mér nú tekist að leika flóknari hluti í Actionary Stúdentaleikhússins - Krabbamein á litlafingurtánögl Davíðs Oddsonar - og svoleiðis rugl, sællar minningar.
  • Um daginn talaði ég við mann sem var að loka byggingarfyrirtæki hérna þar sem það var orðið of dýrt að flytja fólk með þekkinguna frá Senegal.
  • 28% barna 7-12 ára fara í skóla, mörg börn eru yfir 13 ára í grunnskóla og þurfa að endurtaka bekki endalaust vegna þess að kennarar eru alltaf í verkfalli. Bæði kennarar og heilbrigðisstarfsfólk fá oft ekki laun svo mánuðum skiptir.
  • Vegna þessa og almenns lágs menntunarstigs í landinu vantar allan metnað í fólk, enda á það erfitt með að hugsa langt út fyrir daglegt amstur sitt og hugsa til framtíðar. Þetta hamlar aftur framförum og einkaframtaki í landinu.
  • Sjúkrahúsið hérna í Bissá er ekki með rafmagn eða generator! Það hefur örugglega kostað mörg mannslíf. Það er gjörsamlega niðurdrepandi að sjá ástandið þarna inni. Við heimsóttum HIV smitaða konu þarna um daginn og það var eins og hjúkrunarfólkið vissi ekki einu sinni hvernig ætti að meðhöndla sjúkdóminn. Nú er UNICEF að starta verkefnum sem lúta að því að hamla smit frá móður til barns. En jarðvegurinn fyrir slík verkefni er mjög erfiður þar sem þekkingin er engin.
  • Skólakerfið og heilbrigðiskerfið eru auðvitað mjög veikburða vegna rafmagnsleysis og tækniskorts. Í flestum skólum er eina ljósið frá opnum gluggum (sjaldnast er gler í gluggunum, bara op á veggjum).
  • Það er enginn sem sér um að safna rusli svo að litlir ruslahaugar liggja út um borg og bí. Á hverjum degi er byrjað að brenna rusl og þá liggur reykurinn inn um gluggann hjá mér í vinnunni meðal annars.
  • Aðalgöturnar eru malbikaðar, mismikið þó, en utan þeirra eru hverfi með moldarkofum, einstaka steinhúsum og sandgötum. Rauðbrúni sandurinn liggur yfir öllu hérna.
  • Landbúnaðurinn gengur illa þar sem enginn hefur lagt vatnslagnir, það er ekkert rafmagn, og samgöngur eru lélegar. Ef vörubílar komast utan af landi og að bryggju til að flytja vörur til útlanda, þá festast þeir í leðju við höfnina því hún er ekki malbikuð. Það er enginn til að afferma vörurnar á skip og það eru dæmi um að cashew-hnetur liggi í förmum í höfninni.
  • Til að starta landbúnaðinum vantar fólki sárlega vatn á akrana og betri fræ, en núna fá bændur bara lélegustu fræin frá Senegal til hrísgrjónaræktunar. WFP er að vinna í þessu vandamáli núna.
  • Það er erfitt fyrir hið opinbera að framkvæma minnstu hluti vegna rafmagnsleysis og tölvuskorts og almenns skorts á öllu. T.d. er ég ekki enn búin að fá tölur um hversu mörg börn látast af völdum stífkrampa á ári því að rafmagnið liggur niðri í stofnuninni sem á að sjá um þetta. Það eru 3 dagar síðan ég spurði.
  • Lögreglan er algjörlega gagnslaus. Þau eiga ekki bíla, mótorhjól eða neitt. Hvernig getur lögregla fúnkerað án slíks. Sömu sögur er örugglega að segja um tölvuskort, engar símalínur og rafmagnsleysi þar á bæ.
  • Ég hef áður nefnt slökkviliðið. Þar er þó bíll en ekkert rafmagn. Vatnsskortur hlýtur líka að hamla starfi þeirra, en það þarf kannski ekki að taka fram að ég hef ekki rekist á brunahana.
  • Vegna rafmagnsleysis eru engin götuljós í borginni og engin umferðarljós. Þegar sólin sest er ekki hægt að sjá handa sinna skil og skapar þetta auðvitað ákveðna hættu á glæpum. Eini vísirinn að umferðarljósi er maður sem stendur í litlu búri á aðalgatnamótunum hérna og stýrir umferðinni með höndunum hluta úr degi.
  • Ríkisstjórnin hefur engin tök á að verja fiskimiðin og situr uppi með lélega samninga um nýtingu þeirra við Kínverja, Portúgali og einhverja fleiri.
  • Í landbúnaði eru líka lélegir samningar í gangi því að cashew-hneturnar eru sendar óunnar úr landi á lágu verði. Í stað þess að vinna þær hér og skapa atvinnu, selja þær svo dýrar. En hægt er að vinna margvíslega hluti úr cashew-hnetunum, t.d. gómsætan djús, líkjör og fleira. Núna eru örfáir sem gera það og flestir nýta ekki einu sinni blóm hnetunnar. Indverjar kaupa aðallega hneturnar en ef þeir ákveða að hætta þá er voðinn vís fyrir Gíneu-Bissá því að það eru ekki margir markaðir sem þeir hafa gert samning um og auk þess er hættulegt að treysta of mikið á eina vörutegund í útflutningi, eins og nú er með cashew-hneturnar. Kíkið á áhugaverða grein á: http://www.irinnews.org/Report.aspx?ReportId=77042. Sá sem skrifaði greinina, David, var hér á hótelinu mínu og ég fékk einu sinni far með þeim niðrí bæ!
  • Atvinnuleysi er auðvitað mikið og unga fólkið er frústrerað. 80% þjóðarinnar eru á aldrinum 15-35 ára! Og meira en helmingur er undir 18 ára. Pælið í því! Og það er engann veginn verið að nýta þetta fólk.
  • Mikil skipting er á starfsfólki í ráðuneytum og innan hins opinbera og stefnubreytingar tíðar. Þannig að það er erfitt að láta verkefni ganga hratt fyrir sig eða byggja upp þekkingu innan ráðuneytanna. Allur opinberi geirinn er í raun líka oft í verkfalli.
  • Hér eru lélegar samgöngur úti á landi og í bænum eru opin skolpræsi og hættur alls staðar fyrir lítil börn (og fólk yfir höfuð), óhreinlæti og rusl. Maður verður heldur betur að passa sig að stíga ekki ofan í skolpræsi á kvöldin þegar allt er dimmt. Eða á dauða rottu, eins og gerðist næstum því um daginn, hefði ég ekki verið með vasaljós.


Sorglegasta er hversu miklir möguleikar búa í þessu landi. Hér eru ár sem renna um landið, paradísareyjur úti við ströndina, cashew-hnetur um allt, mangó tré, papaya og aðrir ávextir. Maður þarf ekki annað en að hrista tré og ávextirnir detta niður. Loftslagið er yndislegt og hér eru því allar forsendur til ræktunar og landbúnaðar. Nóg er af fiski í sjónum og kannski olíu líka.


Ég verð oft blúsuð yfir þessu ástandi og finnst ég búa í algerri loftbólu því það er svo auðvelt fyrir mig að koma hingað í 3 mánuði og fara svo. En allt annað að þurfa að búa hér alla sína ævi og hafa ekki einu sinni tækifæri á að bæta aðstæður sínar. En sem betur fer hef ég hitt fólk hérna sem vill búa í Gíneu-Bissá til að hjálpa landinu sínu. Það er mjög mikilvægt. Sömuleiðis á Gínea-Bissá núna að fá alþjóðlega aðstoð sem post-conflict country og það er gríðarlega þýðingarmikið og gæti leitt til jákvæðra breytinga fyrir landið á næstu mánuðum og árum.

2 ummæli:

ojonsson sagði...

en þú ert samt algjör hetja fyrir að fara og vera þarna í þessa þrjá mánuði og hjálpa til með starfi þínu og líka fyrir að láta okkur vita hvernig ástandið er.

ps.. - ég efast stórlega um að nokkur okkar bríetstelpna hafi nennu til skipuleggja 8 mars partý þetta árið, - því miður; en við komum bara tvíefldar næsta ár og leigjum Hótel Borg - já og hananú...

olla

Afríkudrottningin sagði...

Takk fyrir hlý orð Ollan mín.
Eg er samt svekkt yfir því að þið ætlið ekki að halda neitt 8. mars - er nokkuð verið að missa sig í barnaveseni!
En ég er þó allavega ekki að missa af neinu, og fiðrildahátíð UNIFEM fær að eiga allt sviðið!