mánudagur, 10. mars 2008

Íslendingar í Gíneu-Bissá

Nú eru allir Íslendingarnir farnir nema Geir, Jónína og Egill Ólafs. Reyndar var hægara sagt en gert að koma Íslendingunum úr landi því Air Senegal var ekkert að stressa sig og kom 5-6 klst. of seint. Bæði viðskiptaráðherra Íslands og utanríkisráðherra Gíneu-Bissá voru að fara með vélinni. Einnig beið viðskiptaráðherra landsins með okkur til eitt í nótt og hringdi reglulega til Senegal til að tékka á málum. En þetta þýðir sumsé að þau eru ekki enn komin til Íslands því þau misstu af flugleiðavélinni frá París. Það er ekki ofsögum sagt að Gínea-Bissá er “landið sem gleymdist”. Það er ekki inn á ratarnum hjá neinum, ekki einu sinni almennilegum flugfélögum!!


En þessi staðreynd er líka ástæðan fyrir því að landið er svona mikil perla. Því til sönnunar ætla ég að setja mynd af paradísareyjunni Rubane þar sem íslenski hópurinn fékk sér hádegisverð síðastliðinn laugardag. Ímyndið ykkur paradísareyju og þetta er það sem kemur upp í hugann ... 

Fyrstu manneskjurnar sem ég hitti á eyjunni voru svo auðvitað Mike og Jeff!! Mig langaði helst að vera eftir og fá far í bæinn með þeim. Núna er ég á fullu að vinna í því að panta herbergi þarna helgina sem Freyr verður hérna, en það er nokkuð snúið því ferðabransinn er ekki kominn ofsalega langt hérna. Næsti hausverkur verður síðan að finna bát til að ferja okkur á eyjuna. 


Annars gekk vikan mjög vel fyrir sig. Íslenski hópurinn stóð sig vel og var landi og þjóð til sóma. Við fórum að skoða skóla í Cacheu héraði og svo heilsuverkefni í Bafata. Heimsóttum yndisleg þorp þar sem íbúarnir gáfu okkur fullt af gjöfum í þakklætisskyni fyrir að styrkja uppbyggingu skólans þeirra í þorpinu. Ég var allavega djúpt snortin yfir því hvað okkur var vel tekið. 


Í bílnum mínum þessa tvo daga í feltinu sátu líka Hreinn Loftsson, Erna Hreinsdóttir og Egill Ólafsson. Í þeim bíl var náttúrulega mikið fjör. Ég læt eftirfarandi vísur tala sínu máli, en Hreinn og Egill nýttu hvert tækifæri til að kveðast á. 


Nísta Ernu núningssár

nokkur á hvorri síðu

þeim valda flestum Hreinn með hár

og hinn fyrir aftan Fríðu.


Kjarkaðar í körinni 

kellingar tvær,

Skapti lá á skörinni

skelfingu nær.


Konur fara á konufund

karlar mega bíða;

þá er stoð í hvíldarstund,

en stutt í nýjan kvíða.


Eftir tvo daga í feltinu fór föstudagurinn allur í fundi með ráðherrum. Svo var haldinn blaðamannafundur, en heimsóknin hefur vakið mikla athygli hér í landi. 


Útgáfutónleikarnir með Super Mama Djombo voru síðan með soldið skrítnu sniði. Frekar formlegt og ekki hægt að dansa. Núna um helgina er verið að reyna að setja upp tvo tónleika sem yrðu meira fyrir almenning og í stærra lókali. Það seldist auðvitað upp á nóinu á tónleikana sem haldnir voru á Palace Hotel á laugardaginn svo það er vel hægt að fylla tvo tónleika í viðbót á stærri stöðum. Það var þó mjög ánægjulegt að vera viðstödd tónleikana því ég veit hversu vel þau hafa æft sig. 

1 ummæli:

Unknown sagði...

Þetta hljómar eins og fréttatilkynning - hvar er Anna?

Smá grín. Flott eyja og svo sannarlega paradísareyja. Vertu bara búin að tryggja ykkur Freysa far upp á fast land að dvöl lokinni. Við viljum ekki að þið verðið eyjaskeggjar á eyðieyju!