Allt í einu finnst mér dauðinn svo áþreifanlegur einhvern veginn. Á aðeins einni viku hafa þrjú dauðsföll komið við mig. Kannski er ekki að furða í landi þar sem lífslíkur við fæðingu eru ekki nema 46 ár.
Það byrjaði auðvitað þegar ég millilenti í Lissabon og sá þar sem verið var að hjartahnoða mann úti á götu. Síðan gerist ekkert fyrr en nú í Mars á síðasta degi Íslendinganna í Bissá að við keyrðum fram hjá nýafstöðnu bílslysi. Hvítur dúkur hafði verið lagður á líkama manns og það sást blóðblettur við höfuð hans. Seinna fréttum við að maðurinn sem lést hafi verið að vinna á sama stað og Jónína var að vinna á á sínum tíma.
Þegar við komum aftur í bæinn eftir ferðina til Rubane um síðustu helgi fréttum við að maður sem vann hjá vesturafríska bankanum í Bissá hafi drukknað í Varele á laugardeginum. Mér skilst hann hafi verið þekktur í þjóðlífinu hér. Rúmlega fimmtugur tveggja barna faðir. Hann var skyldur konu sem vinnur með mér og Daniel, kærasta Karynu. Svo þetta lagðist þungt á fólk í kringum mig.
Nokkrum dögum síðar er ég að reyna að fá þvottinn frá þvottakonunni minni, en hún mætir ekki í vinnunna. Þá frétti ég að hún hafi misst manninn sinn. Hann var að vinna við að byggja brú í Sao Domingos og féll í ánna. Síðast þegar ég vissi var ekki búið að finna líkið, en mikið af krókódílum eru í ánni.
Í lok vikunnar fer ég að heimsækja Reginu sem vinnur með HIV smituðum í Bissá, veitir heimahjúkrun, ráðgjöf og sálræna aðstoð. Ég og ljósmyndarinn fylgdum henni eftir í einn dag í Bissá á fyrstu vikum mínum hérna. Til að nota ljósmyndir af HIV smituðum þarf UNICEF að fá samþykki viðkomandi einstaklings. Við gerum þetta af virðingu við hinn smitaða, því það er mikil neikvæð stimplun sem fylgir því að opinbera HIV stöðu sína svo að þetta er mjög mikilvægt atriði. Ég heimsótti hana því í þeim tilgangi að láta hana fá pappíra til undirritunar og sýna henni myndirnar.
Ég kemst að því þá að konan sem við heimsóttum á spítalanum lést fyrir þremur vikum síðan. Þetta var svo ónauðsynlegur dauðdagi því ef fólk fær rétta meðhöndlun getur það lifað áratugum saman. Hún var 27 ára og þegar við hittum hana var Regina að segja að hún þyrfti nauðsynlega á blóðgjöf að halda, en aðstæðurnar á spítalanum voru svo rosalega niðurdrepandi og það var eins og enginn vissi hvað ætti að gera fyrir hana. Eins og ég heyrði sögu hennar þá vildi fjölskyldan ekki veita leyfi til að gefa henni blóð og dæmdi hana þar með til dauða. Hún stundaði víst vændi og það var ástæðan fyrir reiði fjölskyldunnar. En þau eru múslimar svo það er allt eins víst að hún hafi bara fengið sér kærasta eftir að maðurinn hennar dó! Hver veit. Það er svo erfitt að berjast á móti neikvæðum viðhorfum í þessu samfélagi. Það hamlar svo mörgu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli