12. mars - fimmtudagur
FREYR KEMUR A MORGUN!!! Allt að gerast. Ég þurfti að faxa vegabréfsárituninni hans fyrir GB á hótelið hans í Lissabon. Þvílíkt vesen í dag, en þess virði. Ég hringdi í hann til að athuga hvort faxið hefði ekki komið og þá var kallinn á leiðinni í klukkutíma sightseeing ferð um borgina. Lissabon er falleg borg og ég hefði sennilega gert það sama hefði ég ekki komið eftir myrkur. Ég lét mér nægja að labba um og fara í H&M.
Það eru 95% líkur á því að ég sé búin að redda gistingu á paradísareyjunni Rubane. Svona gengur þetta fyrir sig hérna. Maður þarf að þekkja fólk sem þekkir fólk sem þekkir fólk sem reddar hlutunum. Fyrsti hlutinn var að redda herberginu (nánar tiltekið herbergi númer 2 - því það er best), annar hlutinn verður svo að redda fari út á eyjuna. En það verður nokkuð snúið þar sem nú er bensínskortur í landinu. Orðið á götunni segir að það séu að koma nokkrir lítrar með bíl frá Senegal, en það gæti tekið langan tíma, enginn veit. En það þýðir sumsé að við gætum þurft að taka almenningsferjuna sem tekur 6 tíma eða meira í miklum þrengslum. Það eru þó einhverjar líkur á því að við fáum far með ættingja Tonys (sem reddaði hótelinu líka) sem er að koma frá Senegal og ætlar til Bubaque-eyjunnar sem er rétt hjá Rubane.
Þetta er lítið dæmi um það hvernig samfélagið virkar hérna. Þetta er í raun alveg stórkostlegt eða þannig verður maður að líta á það til þess að pirra sig ekki. Eins og þegar við vorum að fara með fullan bíl af Íslendingum í síðustu viku á Palace Hotel á SMD-tónleikana. Bíllinn var að verða bensínlaus og við fórum á þrjár bensínstöðvar en án árangurs. Í þessarri viku mátti svo sjá fólk með litlar kókdósir á bensínstöðvunum til að reyna að kaupa síðustu dropana.
Annað gott dæmi er að geisladiskur SMD er ekki enn kominn til landsins. 1500 diskar voru fluttir frá Austurríki í þarsíðustu viku, en hafa nú beðið í Dakar í marga daga. Við fréttum af því í gær að kassinn hefði átt að koma til Bissá með Air Senegal. Síðan lét flugvélin auðvitað ekki sjá sig eða kom seint. Við höfum ekkert frétt. Í ofanálag eru tollverðir í verkfalli svo að þó kassinn sé kominn er ekki víst að hann verði afgreiddur. Þessi stutta leið frá Dakar til Bissá hefur þá sumsé tekið yfir viku í afgreiðslu. SMD tónleikarnir eru á morgun og það er óvíst hvort að platan sem þau eru að kynna komi til landsins!
Hins vegar ætla allir að koma á tónleikana og Freyr á eftir að hitta alla á einu bretti. Það verður skrítið að fá hann hingað í mína litlu veröld. Ég er búin að reyna að gera prógram fyrir hann svo honum leiðist ekki á meðan ég er í vinnunni. Ef maður hefur ekkert net í þessu landi get ég alveg ímyndað mér að manni hundleiðist. Ég hef hitt fólk hérna sem talar um Bissá sem helvíti á jörðu, en það er fólk sem ég held að hafi einfaldlega ekkert félagslegt net.
föstudagur, 14. mars 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli